Erlent

Boris segir það undir ESB komið að tryggja að samið verði um Brexit

Andri Eysteinsson skrifar
Boris sótti Skotland heim í gær.
Boris sótti Skotland heim í gær. Getty/Jeff J. Mitchell
Boris Johnson, nýr forsætisráðherra Bretlands segir það undir Evrópusambandinu komið að tryggja útgöngu Bretlands úr sambandinu með samningi. Johnson segist ekki stefna á að Bretar yfirgefi ESB í haust án samnings en til þess gæti komið en boltinn sé hjá „vinum og félögum Breta hinum megin við Ermarsundið.“ Guardian greinir frá.

Boris hefur kallað eftir því að baktryggingin svokallaða, sem er fyrirvari um að reglur sambandsins gildi áfram á Norður-Írlandi þar til samningar nást um varanlega lausn, verði afnumin.

Eitt helsta bitbeinið í viðræðum breskra stjórnvalda við Evrópusambandið um forsendur útgöngunnar er hvernig eigi að greiða úr málum á Írlandi og koma í veg fyrir að koma þurfi upp formlegu landamæraeftirliti á mörkum Norður-Írlands, sem er hluti af Bretlandi, og Írlands, sem verður áfram í Evrópusambandinu.

„Evrópusambandið veit að breska þingið hefur hafnað baktryggingunni í þrígang, það er ekki möguleiki að hún nái í gegn. Við verðum að fá baktrygginguna úr samningnum, við getum ekki sætt okkur við samninginn í núverandi mynd,“ sagði Johnson.

Harðlínu menn harðir á móti baktryggingunni

Fyrr í vikunni deildi Johnson við taoiseach, forsætisráðherra Írlands, Leo Varadkar. Kollegarnir ræddust við í gegnum síma, um baktrygginguna þar sem Varadkar sagði ESB vera einhuga í afstöðu sinni gagnvart baktryggingunni.

Johnson sagði þá ljóst að Bretar myndu aldrei setja upp landamærastöðvar á landamærum Norður Írlands og Írlands en baktryggingin þyrfti að hverfa af samningaborðinu.

Írar og Evrópusambandið telja baktrygginguna vera nauðsynlega til þess að koma í veg fyrir að hörð landamæragæsla verði til staðar á landamærunum áðurnefndu. Baktryggingin veldur hins vegar harðlínu Brexit-mönnum áhyggjum þar sem talið er að með henni haldi Evrópusambandið enn í Bretland, þrátt fyrir útgönguna.

„Ef ESB getur ekki komið til móts við okkur, ef þau geta það alls ekki. Þá verðum við að búa okkur undir Brexit án samnings,“ sagði Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands sem væntanlegur er til Norður Írlands á næstu dögum, í opinberri heimsókn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×