Oddvitar minnstu sveitarfélaga landsins segja þetta ekki koma sér á óvart en eru allir sammála um að ákvörðun um sameiningu sveitarfélaga eigi að vera í höndum íbúanna.
Sveitarfélög landsins eru 72 talsins en 40 þeirra eru með færri en eitt þúsund íbúa. Því er ljóst að stefnt er að því að fækka þeim um rúman helming. Fimm minnstu sveitarfélög landsins eru þá öll með íbúafjölda á bilinu 40 til 74.
„Ég hef ekki farið leynt með það að mér finnst fáránlegt að miða við hausatölu. Það eru svo margir aðrir þættir sem vigta miklu meira, bæði landfræðilegir og atvinnulegir,“ segir Árni Hjörleifsson, oddviti Skorradalshrepps. Íbúar þar eru 58.
Árni kveðst, líkt og oddvitar hinna fjögurra minnstu sveitarfélaganna, skilja báðar hliðar málsins en vill að heimamenn fái að ákveða hvenær þeir vilji fara út í sameiningu við önnur sveitarfélög.

Tekjur minni sveitarfélaga eru oft afar góðar og Árni veltir því fyrir sér hvort þær séu það sem stærri sveitarfélögin girnist.
„Manni hefur virst það vera þannig að þeir vilji bara gleypa þau sveitarfélög sem skila góðum tekjum á haus. Lyktin af þessu er svolítið þannig.“
Það kveður við svipaðan tón hjá oddvita Tjörneshrepps, Aðalsteini J. Halldórssyni. Í Tjörneshreppi er íbúafjöldinn 55. „Kjarni málsins finnst mér vera sá að það er engin gulrót í þessu fyrir litlu sveitarfélögin,“ segir hann. „Við munum ekkert græða á þessu.“
Þvert á móti segir Aðalsteinn sameiningu við nágrannasveitarfélagið Norðurþing þýða aukin fasteignagjöld og útsvar. „Ég held að þetta snúist fyrst og fremst um hagræði fyrir ráðuneytið. Við getum alveg kyngt því en þá verða menn líka bara að segja það hreint út; ekki vera að reyna að sannfæra okkur um að þetta sé öllum til bóta,“ segir hann.
Aðalsteinn og Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti fámennasta sveitarfélags landsins, Árneshrepps, voru þá bæði þeirrar skoðunar að ef til sameiningar við stærri sveitarfélög ætti að koma þyrftu þau minni að hagnast áþreifanlega á þeim. Íbúar Árneshrepps eru 40 talsins.
„Auðvitað eiga sameiningar rétt á sér, og skiljanlega þar sem um lítil sveitarfélög er að ræða,“ segir Eva. „En það þarf að vera einhver akkur í því. Til dæmis í sambandi við betri samgöngur. Annars kæmi þetta ekki til greina að mínu mati.“