Tveir einstaklingar í annarlegu ástandi komust í kast við lögin í nótt að sögn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Annar hafði verið að veitast að fólki á Laugavegi. Engum virðist þó hafa orðið meint af og hefur maðurinn fengið að verja nóttinni í fangaklefa að því er segir í skeyti frá lögreglu.
Þá var drukkin kona handtekin í stigagangi fjölbýlishúss í Hafnarfirði í nótt. Hún á að hafa verið lyklalaus og brugðist ókvæða við þegar hún komst ekki inn í íbúð sína, en konunni á að hafa tekist að vekja alla íbúa hússins með framgöngu sinni.
Það skilaði henni þó ekki inn í íbúðina, heldur inn í fangaklefa þar sem henni er ætlað að sofa úr sér vímuna.
Vakti alla í stigagangi í Hafnarfirði
Stefán Ó. Jónsson skrifar
