Luka Lúkas Kostic stýrir Haukum í síðustu fjórum leikjum liðsins í Inkasso-deild karla. Þetta kemur fram á heimasíðu Hauka.
Luka tekur við af Búa Vilhjálmi Guðmundssyni sem hætti hjá Haukum í gær. Búi tók við liðinu af Kristjáni Ómari Björnssyni eftir fjórar umferðir.
Luka þekkir vel til á Ásvöllum. Hann er þjálfari 3. flokks karla hjá Haukum og þjálfaði meistaraflokk karla í Inkasso-deildinni á árunum 2015-16.
Haukar eru í 10. sæti Inkasso-deildarinnar með 16 stig, jafn mörg og Magni, sem er í 11. sæti, en hagstæðari markatölu. Næsti leikur Hauka er gegn Leikni R. í Breiðholtinu á föstudaginn.
Luka er einn reyndasti þjálfari landsins. Auk Hauka hefur hann stýrt Þór Ak., Grindavík, KR og Víkingi R. Hann hefur einnig þjálfað yngri landslið Íslands.
