Ætla má að lækkun dagsins megi rekja beint til breyttra afkomuhorfa Sýnar, sem félagið greindi Kauphöllinni frá á öðrum tímanum. Fyrri horfur voru að sögn forsvarsmanna of bjartsýnar. Þannig hafi tekjur af fjölmiðlum og fjarskiptum verið ofáætlaðar um tæpar 400 milljónir og kostnaður við útsendingar miðla vanáætlaður um 160 milljónir.
Áætlanir forsvarsmanna Sýnar benda nú til að EBITDA ársins, framlegð fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta, verði um 5,6 milljarðar króna - en ekki á bilinu 6 til 6,5 milljarðar eins og fyrri spár gerðu ráð fyrir.
„Framkvæmdastjórn er búin að breyta uppgjörum deilda og skerpa á innri ferlum sem mun skila sér í áreiðanlegri spám héðan í frá. Sömuleiðis hafa aðgerðir sem gripið var til í rekstrinum í sumar lækkað kostnaðarstig fyrirtækisins umtalsvert til framtíðar,“ segir í tilkynningu Sýnar til Kauphallarinnar.
Þar segir jafnframt að Sýn muni birta uppgjör fyrri hluta ársins þann 28. ágúst næstkomandi og verður það kynnt morguninn eftir.

Lágpunktinum náð
Í pósti til starfsmanna Sýnar skrifar Heiðar Guðjónsson, forstjóri félagsins, að hann telji Sýn hafa náð lágpunkti í rekstri á ársfjórðungnum sem er að ljúka. Það hefur til að mynda birst í uppsögnum að undanförnu; fyrst á fimm millistjórnendum í lok maí og svo á 13 starfsmönnum um miðjan ágúst.Nú liggi leiðin hins vegar upp á við, til að mynda sé kostnaðarsömu sameiningarferli Vodafone og ljósvakamiðla 365 formlega lokið.
„Vinna sumarsins við endurskoðun á innri ferlum, spám og uppgjörum, ásamt skipulagsbreytingum mun skila sér í betri rekstri strax í vetur,“ skrifar Heiðar.
„Ég horfi því bjartsýnn fram á veturinn því með samstilltu átaki getum við gert gríðarlega vel og haft gaman af um leið - viðskiptavinum okkar til heilla.“
Vísir er í eigu Sýnar hf.