Fótbolti

Úrslitaleikur Meistaradeildarinnar 2021 fer fram í St. Pétursborg

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Krestovsky-völlurinn í St. Pétursborg er mikilfenglegt mannvirki.
Krestovsky-völlurinn í St. Pétursborg er mikilfenglegt mannvirki. vísir/getty
Úrslitaleikur Meistaradeildar Evrópu 2021 fer fram á heimavelli Rússlandsmeistara Zenit í St. Pétursborg samkvæmt heimildum AP fréttastofunnar. Þetta verður staðfest á fundi framkvæmdastjórnar UEFA 24. september.

St. Pétursborg og München sóttu um að fá úrslitaleik Meistaradeildarinnar 2021. St. Pétursborg varð fyrir valinu en úrslitaleikurinn 2022 fer væntanlega fram á Allianz Arena, heimavelli Bayern München. Úrslitaleikurinn 2023 verður svo á Wembley, þjóðarleikvangi Englands, í London.

Heimavöllur Zenit, Krestovsky-völlurinn, tekur 68.000 manns í sæti. Hann var opnaður í apríl 2017. Í júlí sama ár fór úrslitaleikurinn í Álfukeppninni fram á vellinum.

Sjö leikir á HM 2018 fóru fram á Kretovsky-vellinum, þ.á.m. bronsleikur Belgíu og Englands og leikur Frakklands og Belgíu í undanúrslitum. Fjórir leikir á EM 2020 fara fram á Kretovsky-vellinum, þ.á.m. einn leikur í 8-liða úrslitum.

Þetta verður í annað sinn sem úrslitaleikur Meistaradeildarinnar fer fram í Moskvu. Árið 2008 vann Manchester United Chelsea eftir vítaspyrnukeppni á Luzhniki-vellinum í Moskvu.

Úrslitaleikur Meistaradeildarinnar 2020 fer fram á Atatürk-vellinum í Istanbúl.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×