Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst í nótt tilkynning um innbrot í íbúðarhúsnæði í Kópavogi. Tveir menn voru handteknir vegna gruns um að hafa framið innbrotið og voru þeir vistaðir í fangageymslum í nótt. Þetta kemur fram í dagbók lögreglu.
Þar kemur einnig fram að lögreglan handtók mann í gærkvöldi sem var með magn af vörum í fórum sínum sem hann gat ekki gert grein fyrir. Hann var handtekinn grunaður um þjófnað. Einnig barst tilkynning um að fartölvu hefði verið stolið af veitingastað í miðbænum og voru tveir menn handteknir skömmu síðar með þýfið.
Þá barst tilkynning um að verið væri að brjótast inn í bíl í miðbænum og voru tveir menn handteknir grunaðir um þjófnað og eignaspjöll.
Lögreglunni barst einnig tilkynning um ölvaðan mann sofandi í bíl. Þegar lögregluþjóna bar að garði kom í ljós að bílinn var ótryggður og að honum hafði verið lagt ólöglega. Skráningarnúmerin voru klippt af honum og hann dreginn á brott.
Innbrot og þjófnaður í borginni í nótt
Samúel Karl Ólason skrifar
