Leikur Fjölnis og Leiknis R. verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Fjölnismönnum dugir jafntefli til að tryggja sér sæti í Pepsi Max-deildinni. Leiknir er í 3. sætinu með 36 stig, fimm stigum á eftir Fjölni og einu stigi á eftir Gróttu sem er í 2. sætinu. Seltirningar mæta botnliði Njarðvíkinga á morgun.
„Þetta verður erfiður slagur. Menn hafa verið duglegir að tala okkur upp í sumar en ég hef alltaf sagt að þetta verði barátta fram á lokadag. En helst viljum við klára þetta á morgun. Við eigum heimaleik og ljóst er að eitt stig dugir,“ sagði Ásmundur Arnarsson, þjálfari Fjölnis, í samtali við Guðjón Guðmundsson í kvöldfréttum Stöðvar 2.
Fjölnismenn hafa verið á toppi Inkasso-deildarinnar í nær allt sumar. Þeir tóku smá dýfu fyrir skemmstu en hafa unnið síðustu tvo leiki sína samtals 13-1.
„Við höfum hikstað á leiðinni en lengst af höfum við leitt deildina,“ sagði Ásmundur sem tók við Fjölni eftir að liðið féll úr Pepsi-deildinni í fyrra. Hann kom Fjölni einnig upp í efstu deild 2007 og tvisvar í bikarúrslit (2007 og 2008).
Leikirnir í næstsíðustu umferð Inkasso-deildarinnar hefjast allir klukkan 14:00 á morgun.
Leikirnir í 21. umferð Inkasso-deildar karla:
Fjölnir - Leiknir R.
Njarðvík - Grótta
Magni - Þróttur R.
Fram - Þór
Afturelding - Víkingur Ó.
Haukar - Keflavík
Fréttina í heild sinni má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.
