Sjá einnig: Leggja til lengri gjaldskyldutíma og gjaldtöku á sunnudögum
Pawel Bartoszek, borgarfulltrúi Viðreisnar og aðalmaður í skipulags- og samgönguráði greindi frá samþyktinni á Twitter-reikningi sínum í gær.
Í skipulags og samgönguráði samþykktum við að lengja gjaldskyldutíma til kl. 20 á vinsælustu stöðum. Þá verður tekin upp gjaldskylda á sunnudögum #aðförin #scpv
— Pawel Bartoszek (@pawelbartoszek) September 11, 2019
Í samþykktinni, sem nú er aðgengileg í fundargerð ráðsins á vef Reykjavíkurborgar, kemur fram að gjaldsvæði í borginni verði stækkað og afmarkast nú eins og sést á meðfylgjandi korti. Þá verður Borgartún gert að gjaldsvæði 1 í stað gjaldsvæðis 2, frá Katrínartúni að Bríetartúni.

Gjald hækkað fyrir gjaldsvæði 1 úr 340 kr/klst í 400 kr/klst og á gjaldsvæði 2 og 4 úr 190 kr/klst í 200 kr/klst. Á gjaldsvæði 3 verður sú breyting gerð að gjaldið verði 100 kr/klst í stða þess að vera 190 kr/klst fyrir fyrstu tvær klukkustundirnar og 55 kr/klst eftir það.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins í skipulags- og samgönguráði lagði fram eftirfarandi bókun við afgreiðslu málsins:
Nú er lagt til að lengja gjaldskyldutímann, hafa gjaldskyldu á sunnudögum og gera fleiri gjaldsvæði að gjaldsvæði 1. Allt snýst þetta um að gera bílafólki eins erfitt fyrir og hægt er, að koma á bílnum sínum í bæinn. Annar ávinningur er ekki sýnilegur. Afleiðingar munu ekki standa á sér, æ fleiri Íslendingar, íbúar úthverfa munu hætta að leggja leið sína í bæinn. Þetta eru harkalegar aðgerðir á meðan ekki er boðið upp á strætó sem fýsilegan kost. Flokkur fólksins vill ítreka að borgin er fyrir alla, líka þá sem koma á bíl sínum. Í það minnsta er nokkuð ljóst að þetta mun varla leiða til þess fólk sem býr langt frá miðbænum ákveði nú að leggja bíl sinum og koma hjólandi í miðbæinn. Allir vita að það mun varla gerast. Fólk notar bíl sinn af mörgum ástæðum.
Gagnbókun fulltrúa Pírata, Samfylkingarinnar og Viðreisnar hljóðaði svo:
Stækkun gjaldskyldra svæða og lenging gjaldskyldutíma er í samræmi við þá stefnu sem mótuð hefur verið og útfærð í stýrihópi um bílastæðamál. Markmiðin eru: betri stýring umferðar, hagkvæmari nýting stæða og auknar tekjur. Sanngjörn gjaldtaka hvetur til fjölbreyttari ferðamáta og minnkar umfang þess að fallegt borgarrými sé nýtt sem langtímageymslusvæði fyrir bíla.