Los Angeles Lakers eru sigurstranglegastir fyrir komandi tímabil í NBA deildinni samkvæmt veðbönkum vestanhafs, en LeBron James reynir hvað hann getur að halda væntingunum niðri.
„Ég hef verið hljóðlátur í sumar af góðri ástæðu. Mamma mín kenndi mér alltaf að maður ætti ekki að tala um hlutina heldur gera þá,“ sagði LeBron á fjölmiðladegi Lakers.
Lakers er sextánfaldur NBA meistari en hefur verið í niðursveiflu síðustu ár og ekki komist í úrslitakeppnina sex ár í röð.
Það geti hins vegar verið að birta til eftir komu Anthony Davis til liðsins.
„Við vitum öll hversu góður Anthony Davis er. Ef við spilum ekki í gegnum hann þegar hann er á vellinum þá er ekkert vit í að hafa hann inn á, hann er það góður,“ sagði LeBron um liðsfélaga sinn.
„Það þýðir samt ekki að við munum kasta hverjum einasta bolta til hans, en við höfum möguleikan á því að gera það.“
