Innlent

Umferð dróst mest saman á Suðurlandi

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Umferðin jókst einungis á einu landssvæði eða á Vesturlandi.
Umferðin jókst einungis á einu landssvæði eða á Vesturlandi. Vísir/Vilhelm
Umferðin á Hringveginum dróst saman um 1,7 prósent í nýliðnum septembermánuði. Þetta kemur fram í frétt á vef Vegagerðarinnar.  Það hefur verið lítið um samdrátt í umferðinni liðin misseri en mestur samdráttur er á Suðurlandi og mælist hann 8,5 prósent. Eigi að síður má reikna með að í heild aukist umferðin í ár um tvo til þrjú prósent á Hringveginum.

„Umferðin í nýliðnum september dróst saman um 1,7% miðað við sama mánuð á síðasta ári yfir 16 lykilteljara Vegagerðarinnar á Hringveginum. Þetta er í annað sinn sem samdráttur mælist á milli mánaða á þessu ári en áður hafði umferðin dregist saman í mars mánuði sem á sér þó skýringar sem snúa að tímasetningu páska.  Við þetta bætist hins vegar líka minnsta mögulega aukning í ágúst sl. eða aukning sem einungis nam 0,1%. Í ljósi þessa má velta því fyrir sér hvort að hagkerfið sé tekið að kólna, rétt eins og mælingar Seðlabanka og Hagstofu gefa til kynna.“

Mynd/Vegagerðin
Segir þar að umferðartölurnar styðji þá niðurstöðu því eins og umferðardeild Vegagerðarinnar hafi bent á virðist vera mikið samhengi á milli hagvaxtar og umferðartalna.

Umferðin jókst einungis á einu landssvæði eða á Vesturlandi um 1,7 prósent.  Umferðin dróst hins vegar mest saman um Suðurland eða um 8,5 prósent. Samkvæmt mælingum Vegagerðarinnar hefur umferðin aukist um tæp þrjú prósent frá áramótum og er það minnsta aukning miðað við árstíma frá árinu 2012.

„Það sem af er ári hefur umferðin aukist í öllum vikudögum en þó hlutfallslega mest á sunnudögum eða um 6%.  Minnst hefur umferðin aukist á mánu- og laugardögum eða um 1,8%. Að jafnaði er mest ekið á föstudögum en minnst á þriðjudögum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×