Bygging aðveitustöðvar sem þjónustað gæti farþegaskip í Sundahöfn er stórt fyrsta skref í átt að umhverfisvænni uppbyggingu á hafnarsvæðinu segir framkvæmdastjóri Veitna. Til stendur að verja um einum milljarði króna í verkefnið.
Gert er ráð fyrir ríflega hundrað milljörðum í fjárfestingar á næstu sex árum samkvæmt fjárhagsspá Orkuveitu Reykjavíkur og dótturfélaga. Stærsta fjárfestingin snýr að uppfærslu á orkumælum en meðal annarra verkefna má nefna fyrirhugaða byggingu aðveitustöðvar rafmagns sem myndi gefa kost á landtengingum stórra skipa í Sundahöfn.
„Það er fjárfesting upp á einn milljarð íslenskra króna og má segja að verkefnið sé þríþætt. Í fyrsta lagi að bæta þjónustu sem er við þá aðila sem eru á svæðinu nú þegar í dag, í öðru lagi að gera borginni kleift að byggja svæðið upp meira og í þriðja lagi að geta þjónustað skemmtiferðaskip með hreina orku þegar þau koma til landsins,“ segir Gestur Pétursson, framkvæmdastjóri Veitna.
Til einföldunar mætti líkja hugmyndinni við það að koma fyrir risastórri innstungu fyrir orkufrek skip.
„Þetta er alveg glænýtt fyrir okkur Íslendinga og við erum bara stolt af því að taka þetta fyrsta stóra skref í áttina að því að geta gert þetta,“ segir Gestur. En fleiri aðilar þyrftu að koma að borðinu í framhaldinu. „Samstarf á milli borgarinnar, Faxaflóahafna, ríkisins og að sjálfsögðu skipafélaganna sem koma til landsins. Að mati Gests yrði þetta stórt grænt skref. Stefnt er að því að fyrsa fasa verkefnissins verði lokið í lok árs 2021 eða ársbyrjun 2022.
Fyrsta skrefið í átt að því að skemmtiferðaskip geti stungið í samband í Sundahöfn

Tengdar fréttir

102 milljarðar í nýja orkumæla, aðveitustöð rafmagns fyrir farþegaskip og fleira
Fjárhagsspá Orkuveitu Reykjavíkur gerir ráð fyrir að næstu sex árin verði 102 milljörðum króna varið í viðhalds- og nýfjárfestingar á vegum samstæðunnar.