Innlent

Ófaglærðar verkakonur beri þyngstu byrðarnar

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Starfsgreinasambandið skorar á hið opinbera að koma af heilum hug til samningaviðræðna um laun og vinnuaðstæður verkafólks í þeirra ranni.
Starfsgreinasambandið skorar á hið opinbera að koma af heilum hug til samningaviðræðna um laun og vinnuaðstæður verkafólks í þeirra ranni. FBL/Eyþór
„Af öllum hópum í samfélaginu hallar mest á ófaglærðar verkakonur. Óhætt er að segja að þessar konur beri þyngstu byrðarnar í íslensku samfélagi.“

Þetta kemur fram í ályktun Starfsgreinasambands Íslands í tilefni af kvennafrídeginum.

Starfsgreinasambandið skorar á hið opinbera að koma af heilum hug til samningaviðræðna um laun og vinnuaðstæður verkafólks í þeirra ranni.

„Nú er nóg komið. Löngu er orðið tímabært að störf þessara kvenna séu metin að verðleikum. Samfélagið verður að taka höndum saman um að tryggja þeim fullnægjandi starfskjör og þar með virðingu í okkar ríka landi. Þar ætti að sjálfsögðu hið opinbera að ganga á undan með góðu fordæmi.“

Fjörutíu og fjögur ár eru liðin frá fyrsta kvennafrídeginum þann 24. Október árið 1975. Þennan dag sameinuðust íslenskar konur um að leggja niður störf og lama þar með íslenskt atvinnulíf til að vekja athygli á vinnuframlagi kvenna á íslenskum vinnumarkaði og inni á heimilunum.

Í ályktuninni segir að SGS standi í harðri kjaradeilu við sveitarfélögin, Reykjavíkurborg og ríki. Þar undir eru fjölmennustu kvennastéttir í umönnunarstörfum.

„Sambandinu blöskrar hvernig komið er fram við þessar konur og hversu takmarkalaus lítilsvirðing í þeirra garð lýsir sér í viðræðum.“

Sjöunda þing Starfsgreinasambands Íslands var sett á Hótel Reykjavík Natura í morgun og mun standa yfir í tvo daga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×