Að sögn Veðurstofunnar má búast við norðvestan hvassviðri og má ætla að vindurinn fari víða í 18 til 25 metra á sekúndu. Varað er við vindhviðum við fjöll, sérstaklega í Öræfasveit, og geta því akstursskilyrði víða verið varhugaverð.
Þessu hvassviðri mun fylgja éljagangur og jafnvel snjókoma á norðanverðu landinu. Ætla má að fyrst verði vart við slyddu í byggð en eftir því sem líður á daginn mun kólna og má þá búast við hálku. Fólk sem á leið um fjallvegi nyrðra ætti að hafa varann á því Veðurstofan gerir þar ráð fyrir skafrenningi og litlu skyggni. Holtavörðuheiðin gæti jafnvel orðið varhugaverð.
Ekki er að sjá miklar breytingar næstu daga, í grófum dráttum köld norðan- eða norðaustanátt með éljum á norðanverðu landinu, en bjartviðri syðra. Hitinn verður á bilinu 3 til 9 stig í dag en í kringum frostmark á morgun.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á þriðjudag og miðvikudag:Norðaustanátt, yfirleitt 10-15 m/s. Él um landið N-vert, annars bjart köflum, en líkur á éljum um tíma allra syðst. Frost 0 til 8 stig, en nærri frostmarki við suðurströndina.
Á fimmtudag:
Stíf norðanátt og snjókoma eða él, en yfirleitt þurrt og bjart syðra. Frost 0 til 7 stig, en um frostmark við sjávarsíðuna.
Á föstudag:
Minnkandi norðanátt og dálítil él NA-lands, en léttir til í öðrum landshlutum og kólnar í veðri.
Á laugardag (fyrsti vetrardagur):
Útlit fyrir hæga vinda og bjartviðri í flestum landshlutum, en áfram kalt í veðri.
Á sunnudag:
Gengur líklega í hvassa austanátt með snjókomu eða slyddu SA til á landinu og hlýnar heldur.