Skoðun

Ábyrgð Íslands í samfélagi þjóðanna

Guðlaugur Þór Þórðarson skrifar
Íslendingum er í mun að leggja sitt af mörkum í samfélagi þjóðanna. Í nýlegri könnun kemur fram að 86% þjóðarinnar telji það siðferðislega skyldu Íslands að draga úr fátækt í þróunarríkjum. Íslendingar nutu á sínum tíma góðs af lánum frá Alþjóðabankanum á árunum 1951-1973 til uppbyggingar innviða í okkar eigin samfélagi og þarf tæpast að fjölyrða um þá framþróun sem orðið hefur á Íslandi frá miðri síðustu öld.

Í dag er Alþjóðabankinn hins vegar einn helsti vettvangur íslenskrar þróunarsamvinnu og næstu tvö árin situr Ísland í stjórn bankans fyrir hönd kjördæmis Eystrasaltsríkjanna og Norðurlandanna. Alþjóðaframfarastofnunin (IDA) er ein fimm stofnana Alþjóðabankans og sú þeirra sem aðstoðar fátækustu þróunarríkin. Á hverju ári leggur hún fram um 2.500 milljarða íslenskra króna til hagstæðra lána og nýrra verkefna í fátækum löndum þar sem búa tveir af hverjum þremur sárafátækustu íbúum heimsins.

Fjármunum er m.a. varið í bætt aðgengi og gæði heilbrigðisþjónustu og grunnmenntunar í þessum löndum. IDA er einnig lykilstofnun í fjármögnun aðgerða í loftslagsmálum og hefur lagt aukna áherslu á að skapa og styðja við markaði í fátækustu ríkjunum til að fá hjól atvinnulífsins til að snúast. Sem framlagsríki kemur Ísland að mótun stefnu og forgangsmála IDA.

Íslendingar geta verið stoltir af 58 ára farsælu samstarfi við IDA en með því höfum við gegnum tíðina átt þátt í að bólusetja 330 milljónir barna, veita 96 milljónum manna aðgang að heilnæmu vatni og 769 milljónum manna grunnheilbrigðisþjónustu – en slíkur var árangurinn af verkefnum IDA undanfarin átta ár. Í nýrri stefnu um alþjóðlega þróunarsamvinnu segir að með virkri þátttöku leitist Ísland við að uppfylla skyldur sínar sem ábyrg þjóð í samfélagi þjóðanna. Þátttaka Íslands í IDA er mikilvægur hluti af því starfi.

Höfundur er utanríkisráðherra




Skoðun

Sjá meira


×