Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Njarðvíkur, þekkir vel til Williams en hann þjálfaði hann hjá Þór Þ. á þarsíðasta tímabili.
Þrátt fyrir komu Williams er Bandaríkjamaðurinn Wayne Martin, sem hefur leikið með Njarðvík í upphafi móts, er ekki á förum frá félaginu. Njarðvíkingar verða því með tvo bandaríska leikmenn sem munu skipta mínútum á milli sín.
Williams er 28 ára leikstjórnandi sem lék síðast með Wilki Morskie Szczecin í Póllandi. Hann hefur einnig leikið í Tyrklandi, Sviss og Finnlandi. Williams lék með UMAss háskólanum í Bandaríkjunum á árunum 2011-14.
Williams lék átta leiki með Þór tímabilið 2017-18. Í þeim skoraði hann 15,8 stig, tók 4,3 fráköst og gaf 4,8 stoðsendingar. Hér fyrir neðan má sjá tilþrif Williams úr leik Þórs og ÍR.
Þetta er önnur breytingin sem Njarðvík gerir á leikmannahópi sínum eftir að tímabilið hófst. Í síðasta mánuði var litháíski leikstjórnandinn Evaldas Zabas látinn fara. Í staðinn fékk Njarðvík Kyle Williams, Bandaríkjamenn með breskt ríkisfang.
Njarðvík, sem hefur tapað fjórum leikjum í röð, er í 10. sæti Domino's deildarinnar með tvö stig. Næsti leikur liðsins er gegn Val á föstudaginn.