Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Norðurlandi Eystra hefur erfiðlega gengið að ráða niðurlögum eldsins og leggur talsverðan reyk yfir hluta Oddeyrarinnar. Eru íbúar beðnir að loka gluggum hjá sér meðan þetta ástand varir.
Meðfylgjandi myndband tók fréttamaður okkar á vettvangi.
Uppfært 08:20
„Búið er að slökkva eldinn að mestu. Nú er verið að rífa þakið af til að komast að restinni af eldinum,“ segir Vigfús Bjarkason, varðstjóri hjá Slökkviliði Akureyrar í samtali við fréttastofu. Enn er töluverður reykur á svæðinu þó að hann sé að minnka, íbúar eru því beðnir um að hafa glugga áfram lokaða.
Vigfús segir að ekki sé búið að fara inn í húsið þar sem það sé ekki talið öruggt. Húsið er timburhús klætt með bárujárni og er það ónýtt. Slökkvistarf verður áfram á svæðinu næstu klukkustundirnar og biður Vigfús íbúa að halda sig frá svæðinu og að virða lokanir.
Uppfært 10:15
Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliði hefur fengist staðfest að enginn var í íbúðinni þar sem eldurinn kom upp.

