Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður stýrihóps sem skipaður var í fyrra um verkefnið, mun kynna skýrslu hópsins og afhenda hana Sigurði Inga Jóhannssyni, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Skýrslan verður birt á vef ráðuneytisins að fundi loknum.
Verkefni stýrihópsins var að skoða nánar hugmyndir um nýjan alþjóðaflugvöll í Hvassahrauni og skoða staðsetningu innanlandsflugvallar á höfuðborgarsvæðinu. Er óhætt að segja að ekki sé um fyrstu skýrsluna að ræða þar sem framtíð flugs á suðvesturhorninu er til umfjöllunar.
Vísir mun sýna beint frá fundinum og verður streymi aðgengilegt hér að neðan rétt áður en fundur hefst.
Skýrslan var kynnt í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis fyrir um tíu dögum gær. Fram kom í frétt Ríkisútvarpsins þann 21. nóvember að meðal niðurstaðna væri að það tæki allt að 20 ár að byggja flugvöll í Hvassahrauni eftir að ákvörðun um slíkt lægi fyrir.
Þá myndi kostnaður við flugvöll í Hvassahrauni sem bæði sinnti millilanda- og innanlandsflugi verða að minnsta kosti 300 milljarðar króna. Verðmiði á innanlandsflugvelli í Hvassahrauni yrði hins vegar um 40 milljarðar. Starfshópnum mun ekki þykja vænlegt að endurnýta Reykjavíkurflugvöll. Slíkt myndi kosta 15-20 milljarða en lengja þyrfti flugbrautir yfir Suðurgötu og út í Fossvoginn.
Flutningur innanlandsflugs til Keflavíkur myndi samkvæmt skýrslunni kosta um 44 milljarða.
Upphaflega stóð til að kynna skýrsluna þann 22. nóvember því var frestað vegna verkfalls á vefmiðlum samkvæmt því sem fram kom í Fréttablaðinu.
Uppfært. Fundinum er lokið og er upptakan aðgengileg hér fyrir neðan ásamt fréttum af fundinum.