Fimm leikir fóru fram í NBA körfuboltanum vestanhafs í gær og í nótt. Enn einu sinni var það slóvenska undrið Luka Doncic sem stal senunni.
Þessi tvítugi snillingur hefur verið algjörlega óstöðvandi í undanförnum leikjum og hann var langbesti maður vallarins með 41 stig og 10 stoðsendingar þegar Dallas Mavericks tók James Harden og félaga í Houston Rockets í kennslustund og það á heimavelli Rockets. Lokatölur 123-137.
Harden var einnig atkvæðamikill og var nálægt þrefaldri tvennu með 32 stig, 11 stoðsendingar og 9 fráköst en Russell Westbrook kom næstur í stigaskorun með 27 stig.
Denver Nuggets hefur byrjað mótið vel og urðu ekki á nein mistök þegar liðið fékk Phoenix Suns í heimsókn. Tólfti sigur Nuggets og hefur liðið aðeins tapað þremur leikjum.
Þá vann Brooklyn Nets nágrannaslaginn við New York Knicks í Madison Square Garden með naumindum, 101-103. Knicks með næst slakasta árangur allra liða með aðeins fjóra sigurleiki en þrettán töp.
Úrslit gærdagsins
New York Knicks 101-103 Brooklyn Nets
Houston Rockets 123-137 Dallas Mavericks
Washington Wizards 106-113 Sacramento Kings
Denver Nuggets 116-104 Phoenix Suns
Los Angeles Clippers 134-109 New Orleans Pelicans
