Þetta sagði hann í ávarpi í Nagasaki, þar sem seinni kjarnorkusprengja Bandaríkjanna af tveimur féll í Japan árið 1945.
Eftir að hann lagði blómkransa og bað í rigningunni við minningarmerki fyrir fórnarlömbin, sagði Frans að staðurinn væri bitur áminning „um sársaukann og hryllinginn sem menn eru tilbúnir til að leggja á hvern annan.“
„Eins viss um það og ég er að heimur án kjarnorkuvopna sé mögulegur og nauðsynlegur, bið ég leiðtoga að gleyma því ekki að þessi vopn geta ekki verndað okkur gegn hinum ýmsu ógnum,“ sagði Frans.

„Það er ekki hægt að ná fram friði eða alþjóðlegum stöðugleika ef haldið er áfram að byggja á hræðslu um gereyðingu,“ bætti hann við. „Friði er aðeins hægt að ná fram ef alþjóðasamfélagið kemur sér upp sameiginlegum siðferðislegum markmiðum og samvinnu.“

Fyrir nokkrum árum var Frans gefin ljósmynd af dreng frá Nagasaki sem ber lífvana bróður sinn á bakinu á leið í líkbrennslu eftir sprengingarnar. Síðan þá hefur páfinn dreift milljónum afrita af ljósmyndinni með orðunum „ávöxtur stríðs,“ prentuðum á (e. The fruit of war.)

Í fyrri kjarnorkuárás Bandaríkjanna, á Hiroshima, þann 6. ágúst 1945 dóu 140 þúsund manns og í þeirri síðari í Nagasaki, þremur dögum síðar, dóu 74 þúsund manns. Margir eftirlifenda glímdu við kjarnorkutengda sjúkdóma og margir þeirra börðust við krabbamein.