Upphaflega var lagt upp með að áætlunarflug Wow air, sem bandaríska athafnakonan Michelle Ballarin hyggst endurreisa, á milli Keflavíkur og Washington gæti hafist í október.
Í byrjun október var haft eftir Ballarin að hefja ætti sölu á flugmiðum í nóvember og að allt yrði komið á fullt hjá félaginu í desember. Þær spár hafa þó ekki ræst.
Almannatengillinn Gunnar Steinn Pálsson, sem komið hefur að undirbúningi endurreisnarinnar, ítrekar í samtali við Vísi það sem hann tjáði fréttastofu fyrr í vetur: að ferlið hafi reynst tímafrekara en von var á. Undirbúningsvinnan sé þó enn í fullum gangi – allt sé á réttri reið, en ef til vill ekki á þeim hraða sem lagt var upp með í fyrstu.
Tafirnar skrifist þannig annars vegar á ákveðnar hindranir sem orðið hafi í vegi aðstandenda félagsins. Hins vegar hafi komið upp ýmis ný tækifæri og nýjar forsendur, sem tilefni hafi verið til að taka til skoðunar, og ferlinu frestað enn frekar.

Play hafi engin áhrif
Vinnan gengur þó vel, að sögn Gunnars. Þannig sé tíminn í fyrsta flug Wow air frekar mældur í vikum en mánuðum, þó ekki sé hægt að gefa upp nákvæma dagsetningu. Eins og áður hefur komið fram verða fraktflutningar á fiski og öðrum varningi stór hluti starfseminnar, í það minnsta fyrst um sinn.„Í þessum allra fyrstu ferðum á milli Keflavíkur og Washington verður, samhliða farþegafluginu í efra rýminu, lögð höfuðáhersla á góða nýtingu í vöruflutningarýminu,“ segir Gunnar.
Inntur eftir því hvort hið nýstofnaða lággjaldaflugfélag Play hafi haft einhver áhrif á framgang starfseminnar segir Gunnar svo ekki vera.
Þá kveðst hann ekki vilja upplýsa neitt um einstaka þætti undirbúningsins, til dæmis leigu á húsnæði undir starfsemina hérlendis. Um starfsfólks félagsins segir Gunnar að það verði blanda af íslensku og erlendu vinnuafli en ekki sé komið á hreint hvernig hlutföllin verði í þeim efnum. Þá vill hann heldur ekki upplýsa um mögulegar heimsóknir Ballarin til Íslands, hvorki nýliðnar né væntanlegar, en síðasta staðfesta heimsókn hennar til landsins var í lok október.
Komið hefur fram að Ballarin greiddi 50 milljónir króna fyrir eignirnar sem hún keypti úr þrotabúi WOW air. Þeirra á meðal eru fjólubláu búningarnir, margvíslegar rekstrarvörur, varahlutir, bókunartækni og handbækur.