Viðskipti innlent

Saka skiptastjóra WOW air um að hafa tvíselt eignir

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Á meðal þess sem Michelle Ballarin keypti úr þrotabúi Wow air eru fjólubláu búningarnir, margvíslegar rekstrarvörur, varahlutir, bókunartækni og handbækur.
Á meðal þess sem Michelle Ballarin keypti úr þrotabúi Wow air eru fjólubláu búningarnir, margvíslegar rekstrarvörur, varahlutir, bókunartækni og handbækur. Vísir/Vilhelm

Fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá WOW air hefur sakað skiptastjóra þrotabús flugfélagsins um að hafa tvíselt eignir úr búinu. Hann mun fara fram á lögbann á notkun flugfélags Michelle Ballarin á ýmsu kynningarefni sem hann telur sig hafa náð samkomulagi um að kaupa.

Þetta kemur fram í Markaði Fréttablaðsins þar sem haft er eftir Engilberti Hafsteinssyni, fjárfesti og framkvæmdastjóra markaðssviðs WOW air á árunum 2014 til 2018 að hann telji það ótrúleg vinnubrögð af hálfu skiptastjóra þrotabúsins að selja „sama hlutinn tvisvar sinnum“.

Þannig hafi Engilbert óskað eftir því að kaupa efni sem hann hafi ritað fyrir vef flugfélagsins og tímarit, auk myndbandsefnis. Starfsmaður þrotabúsins hafi staðfesti að Engilbert gæti keypt efnið og sagðist hafa fengið samþykki frá skiptastjóra.

Reikningur hafi verið gefinn út fyrir kaupum Engilberts í september, skömmu eftir að greint var frá kaupum US Areospace Associates, félagi Ballarin, á helstu eignum þrotabús WOW air.

Í Markaðinum kemur fram að síðar hafi komið í ljós að þrotabúið hafi selt það sem Engilbert taldi sig hafa keypt til félags Ballarin.

Er haft eftir honum að hann muni krefjast lögbanns noti félagið það kynningarefni sem Engilbert telur sig hafa keypt, auk þess sem hann skorar á skiptastjóra þrotabúsins að afhenda efnið. Ella muni hann vísa ágreiningnum til héraðsdóms.


Tengdar fréttir

3,7 milljarða forgangskröfur samþykktar í þrotabú WOW air

Búið er að samþykkja níu hundruð forgangskröfur er nema alls 3,7 milljörðum króna í þrotabú WOW air. Boðað var til skiptafundar í þrotabúinu á Nordica hótel í dag og að sögn Þorsteins Einarssonar skiptastjóra voru flestar forgangskröfur samþykktar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×