Erlent

Geimfararnir fá ekki jólagjafirnar

Samúel Karl Ólason skrifar
Teikning af Starliner á braut um jörðu.
Teikning af Starliner á braut um jörðu. Vísir/Boeing

Forsvarsmenn NASA og Boeing hafa ákveðið að geimfarinu Starliner verði snúið aftur til jarðarinnar. Ómögulegt sé að fljúga því til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar. Fyrst vilja starfsmenn Boeing þó nota það eldsneyti sem er í geimfarinu til að framkvæma þær tilraunir sem mögulegt er og er áætlað að geimfarið lendi á jörðinni á sunnudaginn.

Starliner var skotið á loft í morgun og var það í fyrsta sinn sem senda átti farið til geimstöðvarinnar. Nota á farið í framtíðinni til að ferja geimfara út í geim frá Bandaríkjunum en það hefur ekki verið gert um árabil.

Um borð í farinu voru jólagjafir til geimfaranna sex sem eru um borð í geimstöðinni.

Eldflaugarnar sem báru geimfarið út í geim virkuðu sem skyldi en þegar kveikja átti á hreyflum geimfarsins sjálfs varð bilun og náði það aldrei réttri sporbraut um jörðu. Jim Bridenstine, forstjóri NASA, segir innra kerfi geimfarsins hafa bilað svo geimfarið taldi sig vera í öðrum hluta geimskotsins en það var í rauninni. Ekki er vitað nákvæmlega af hverju það gerðist.

Geimfarið brenndi því meira eldsneyti en til stóð og missti af sporbrautinni sem það átti að ná. Annar bruni hafi komið farinu í jafnvægi en við það varð ljóst að ekki var hægt að ná til geimstöðvarinnar.

Á blaðamannafundi í dag bætti Bridenstine við að ef geimfarar hefðu verið um borð í farinu hefði öryggi þeirra ekki verið ógnað og þar að auki hefðu þeir mögulega getað bjargað málunum og komið farinu til geimstöðvarinnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×