Erlent

Telja að um 90.000 heilbrigðisstarfsmenn hafi veikst í faraldrinum

Kjartan Kjartansson skrifar
Heilbrigðisstarfsmaður í hlífðarklæðnaði hugar að sjúklingi á sjúkrahúsi í Cambridge á Englandi. Víða um heim hefur heilbrigðisstarfsfólk skort nauðsynlegan hlífðarbúnað.
Heilbrigðisstarfsmaður í hlífðarklæðnaði hugar að sjúklingi á sjúkrahúsi í Cambridge á Englandi. Víða um heim hefur heilbrigðisstarfsfólk skort nauðsynlegan hlífðarbúnað. Vísir/EPA

Að minnsta kosti 90.000 heilbrigðistarfsmenn hafa smitast af Covid-19-sjúkdómnum í kórónuveirufaraldrinum um allan heim. Fjöldinn gæti þó verið allt að tvöfalt meiri, að mati Alþjóðaráðs hjúkrunarfræðinga (ICN). Víða hefur heilbrigðisstarfsfólk skort hlífðarbúnað.

Howard Catton, framkvæmdastjóri ICN segir Reuters-fréttastofunni að 90.000 smit séu líklega varfærið mat þar sem það nái ekki yfir öll lönd heims. Tölurnar byggja á gögnum frá landssamböndum hjúkrunarfræðinga, opinberum tölum og fréttum frá þrjátíu löndum.

Alls hafa fleiri en 260 hjúkrunarfræðingar látist í faraldrinum, að því er segir í yfirlýsingu frá ráðinu sem 130 landssamtök með meira en tuttugu milljónir félaga eiga aðild að. Ráðið hvetur ríki til að halda betur utan um gögn um smit starfsfólks til að koma í veg fyrir að veiran berist á milli þess og sjúklinga.

„Hneykslið er að ríkisstjórnir safna hvorki né greina frá þessum upplýsingum á kerfisbundinn hátt. Okkur virðist sem að þær skelli skollaeyrum við þessu sem við teljum algerlega óásættanlegt og muni kosta fleiri mannslíf,“ segir Catton.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) hefur áður sagt að 194 aðildarríki hennar hafi ekki staðið skil á ítarlegum gögnum um smit á meðal heilbrigðisstarfsfólks í faraldrinum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×