Hlé var gert á fundi samninganefnda Eflingar og Sambands íslenskra sveitarfélaga á sjötta tímanum í dag eftir hátt í átta klukkustunda langa fundarlotu hjá ríkissáttasemjara. Viðræðurnar eru sagðar á viðkvæmu stigi en fundur heldur áfram klukkan tíu í fyrramálið.
Verkfall á þriðja hundrað félagsmanna Eflingar hjá Kópavogsbæ, Mosfellsbæ, Seltjarnarnesbæ og sveitarfélaginu Ölfusi hófst á þriðjudag. Verkfallið hefur meðal annars haft mikil áhrif á starfsemi grunn- og leikskóla í bæjarfélögunum. Lítill árangur hefur náðst á samningafundum í deilunni hingað til en samningar hafa verið lausir í rúmt ár.
Formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur sagt kröfur Eflingar langt fram úr hófi og umfram hækkanir annarra bæjarastarfsmanna. Efling segist berjast fyrir því að félagsmenn í þessum sveitarfélögum fái sömu kjarabætur og félagsmenn í Reykjavík og hjá ríkinu.