Fótbolti

Enn eitt áfallið í Bergamo á Ítalíu: Nítján ára leikmaður Atalanta lést

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andrea Rinaldi varð ítalskur U17 meistari með Atalanta BC og fagnar hér eftir að hafa skorað í úrslitaleiknum á móti Internazionale í júní 2017.
Andrea Rinaldi varð ítalskur U17 meistari með Atalanta BC og fagnar hér eftir að hafa skorað í úrslitaleiknum á móti Internazionale í júní 2017. Getty/Giuseppe Bellini

Andrea Rinaldi, nítján ára efnilegur knattspyrnumaður hjá Atalanta, var fluttur á Varese spítalann á dögunum og nú er ljóst að strákurinn hafi það ekki af.

Football-Italia segir frá því að Andrea Rinaldi hafi verið fluttur á gjörgæslu eftir að hafa liðið illa eftir að hafa verið að æfa heima hjá sér.

Atalanta staðfesti síðan í dag að Andrea Rinaldi væri látinn eftir þriggja daga baráttu. Hann hafði fengið heilaslagæðargúlp og það leiddi hann til dauða.

„Antonio Percassi forseti og öll Atalanta fjölskyldan syrgir og þjáist með fjölskyldu Andrea Rinaldi. Andrea klæddist bláu og svörtu treyjunni frá því að hann var þrettán ára gamall og varð meistari og súperbikarmeistari með sautján ára liði félagsins. Hann var elskaður af öllu,“ segir í fréttatilkynningu frá ítalska félaginu.

Andrea Rinaldi hefði haldið upp á tvítugsafmælið sitt 23. júní næstkomandi.

Andrea Rinaldi var meðal liðsfélagi og jafnaldri Svíans Dejan Kulusevski hjá Atalanta en félagið seldi þann síðarnefnda til Juventus.

Rinaldi var lánaður til D-deildarliðsins Legnano á þessu tímabili en hefur einnig farið á láni til bæði Imolese og Mezzolara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×