Körfubolti

„Breytti ýmsu þrátt fyrir mikið mótlæti frá ákveðnum hópi“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ, sæmir Ólaf Rafnsson, forseta ÍSÍ og fyrrverandi formann KKÍ, gullmerki Körfuknattleikssambands Íslands á ársþingi Körfuknattleikssambands Íslands vorið 2006.
Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ, sæmir Ólaf Rafnsson, forseta ÍSÍ og fyrrverandi formann KKÍ, gullmerki Körfuknattleikssambands Íslands á ársþingi Körfuknattleikssambands Íslands vorið 2006. Mynd/KKÍ

Ísland eignaðist forseta Körfuknattleiksambands Evrópu á þessum degi fyrir tíu árum síðan. Ólafur Rafnsson var þá kosinn forseti FIBA Europe.

Ólafur Rafnsson gegndi því starfi þar til að hann varð bráðkvaddur í Sviss 19. júní 2013 þar sem hann sótti und í miðstjórn FIBA World, Alþjóða Körfuknattleikssambandsins.

Hannes S. Jónsson tók við af Ólafi á sínum tíma sem formaður Körfuknattleikssambands Íslands og hafði áður verið varaformaður í fimm ár.

Hannes minntist í þessa merku tímamóta þegar Ólafur Rafnsson var kosinn forseti FIBA Europe.

„Þetta var mikil rússibanareið og lærdómsrík kosningabarátta sem við tókum þátt í. Á sínum stutta tíma í embætti fékk hann ýmsu breytt þrátt fyrir mikið mótlæti frá ákveðnum hópi,“ skrifaði Hannes á fésbókarsíðu sína. Hannes er meðal annars að vísa til þess að Ólafur kom meðal annars í gegn breytingum á undankeppni Evrópumótsins sem áttu seinna eftir að gefa Íslandi tækifærið að komast inn á Eurobasket í fyrsta sinn.

„Minning um einstakan og góðan vin lifir, hans góðu verk fyrir körfuboltann og íþróttir lifa áfram um ókomin ár,“ skrifaði Hannes.

Ólafur Rafnsson var nýorðinn fimmtugur þegar hann lést. Hann hafði þá verið forseti Íþróttasambands Íslands frá árinu 2006 og forseti FIBA Europe í þrjú ár. Ólafur var formaður KKÍ frá 1996 til 2006.

Ólafur var sjálfur öflugur körfuboltamaður og varð einu sinni Íslandsmeistari og tvisvar sinnum bikarmeistari með liði sínu Haukum. Hann náði því líka að vinna efstu þrjár deildirnar með Haukum, úrvalsdeildina 1988, 1. deildina 1983 og 2. deildina 1981.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×