Innlent

ASÍ vill samráð um næsta aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar

Næsti aðgerðapakki ríkisstjórnarinnar verður kynntur fljótlega eftir helgi. Alþýðusamband Íslands kallar eftir samráði og vill sjá aðgerðir sem miða að því að vernda fólkið í landinu, fremur en að standa vörð um fjármagn.

Frá því að Alþingi samþykkti fyrsta stóra aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar vegna kórónuveirufaraldursins hafa verið kynnt nokkur frekari úrræði. Þar á meðal eru aðgerðir sem fela í sér lækkun vaxta og greiðslubyrði á námslánum. Þá hefur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra undirritað reglugerð sem flýtir stuðningsgreiðslum við sauðfjárrækt um nokkra mánuði og á morgun verður væntanlega gengið frá samningi við Seðlabanka Íslands vegna brúarlána.

Ekki liggur endanlega fyrir hvenær næsti aðgerðapakki verður kynntur en stefnt er að því að það verði strax eftir helgi. Alþýðusamband Ísland kynnti í dag sýnar áherslur vegna næsta aðgerðapakka.

„Við viljum að það verði áframhald á hlutastarfaleiðinni. Við krefjumst þess að atvinnuleysistryggingarnar verði bættar og hækkaðar. Við viljum líka að það séu verndaðir sérstaklega hópar sem verða fyrir algeru tekjufalli, það er að segja fólk með undirliggjandi sjúkdóma og þungaðar konur,“ segir Drífa Snædal, forseti Alþýðusambandsins.

Sambandið vinnur nú einnig að tillögum að vernd fyrir heimili, nýsköpun og menntun til að koma í veg fyrir að atvinnuleysi verði meira en nauðsynlegt er.

Hún leggur áherslu á samráð verði haft við verkalýðshreyfinguna.

„Við væntum þess að við fáum að koma að þessum pakka áður en hann verður kynntur og þá koma okkar athugasemdum á framfæri. Það hefur sýnt sig að úrræði stjórnvalda verða yfirleitt betri með samráði,“ segir Drífa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×