Útlit er fyrir að veðrið í dag verði svipað og í gær þar sem vindur verður yfirleitt hægur og breytilegur. Má reikna með rúmlega tíu metrum á sekúndu úr austri við suðurströndina.
Í hugleiðingum veðurfræðings segir að á norðurhelmingi landsins verði víða léttskýjað og sólríkt.
„Sunnantil eru ský á lofti og einhverjir dropar gætu fallið úr sumum þeirra. Væntanlega verður hlýjast á Vesturlandi í dag, um 13-14 stig þar sem best lætur.
Það má með sanni segja að síðustu vikur hafi verið lítil úrkoma á landinu. Á því verður breyting á morgun, þá nálgast lægð úr suðri og henni fylgir myndarlegt regnsvæði. Það mun rigna í öllum landshlutum á morgun og það í talsverðu magni á suðurhelmingi landins. Vindur verður úr austri eða suðaustri, víðast hvar kaldi eða strekkingur að styrk, en allhvass eða hvass strengur með suðurströndinni.
Rigningin á morgun er kærkomin fyrir gróður, sem þarf vætu til að vaxa og dafna. Einnig mun rigningin hjálpa í baráttunni við gróðurelda, sem oft láta á sér kræla í þurrkatíð á vorin,“ segir á vef veðurstofunnar.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á miðvikudag: Austan og suðaustan 8-15 m/s, en 15-20 syðst á landinu fram yfir hádegi. Víða rigning, talsverð úrkoma um landið sunnanvert. Hiti 7 til 13 stig.
Á fimmtudag (uppstigningardagur): Sunnan 8-13 og skúrir, en léttskýjað á Norður- og Austurlandi. Hiti 8 til 15 stig, hlýjast norðaustanlands.
Á föstudag: Ákveðin austanátt og skýjað, en úrkomulítið. Norðlægari og rigning austanlands um kvöldið. Hiti frá 7 stigum austast á landinu, upp 16 stig á Norður- og Vesturlandi.
Á laugardag: Norðaustanátt og rigning um landið norðan og austanvert, en bjart með köflum sunnan heiða. Hiti 5 til 15 stig, hlýjast á Suðurlandi.
Á sunnudag og mánudag: Breytileg átt og líkur á vætu í flestum landshlutum. Heldur kólnandi.