Innlent

20% aukning í útköllum hjá þyrlusveit

Sylvía Hall skrifar
Frá útkalli við Hvannadalshnjúk í vikunni.
Frá útkalli við Hvannadalshnjúk í vikunni. Landhelgisgæslan

Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar sinnti 20% fleiri útköllum fyrstu fjóra mánuði ársins en á sama tíma í fyrra. Alls fór sveitin í 74 útköll á tímabilinu.

Nú í þessari viku fór áhöfnin á TF-GRO í tvö útköll. Annars vegar þegar leitað var að skipverja á Vopnafirði og hins vegar þegar slösuð kona var sótt við Hvannadalshnjúk.

Í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni segir að þegar mikið er flogið sé viðhald í samræmi við það. Smávægileg bilun hafi komið upp í TF-EIR og var henni nauðlent á flugvellinum við Sandskeið. Aðvörunarljós hafi gefið til kynna að olíuþrýstingur á aðalsmurkerfi gírkassa vélarinnar hafi fallið niður fyrir eðlileg viðmið. Þyrlan er þó komin aftur í gagnið.

Hefðbundnu viðhaldi á TF-GRO eftir útkallið á Hvannadalshnjúk lýkur fljótlega samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×