Grikkland hefur opnað landamæri sín á ný en aðeins er alþjóðlegum flugum heimilt að lenda á flugvellinum í Aþenu. Farþegar verða skimaðir við komu og er þeim skylt að gista í eina nótt á sérstöku hóteli. Ef farþegar greinast ekki með kórónuveiruna þurfa þeir að fara í sóttkví í sjö daga en í fjórtán daga séu þeir smitaðir samkvæmt reglum sem gilda til 15. júní næstkomandi.
Frá 15. júní til 30. júní verður létt á þessum reglum og verður tekið á móti flugvélum í Aþenu og Thessaloniki. Farþegar sem ferðast frá löndum sem ekki eru listuð hjá EASA munu ekki þurfa að fara í sóttkví en gætu verið skimaðir af handahófi. Þeir sem koma frá löndum á lista EASA munu þurfa að gista á sérstöku hóteli og fara í 7 daga sóttkví ef ekki er um smit að ræða en 14 ef þeir reynast smitaðir.
Frá og með 1. júlí verður létt enn frekar á takmörkunum og verða allir flugvellir opnir. Farþegar verða valdir af handahófi til að fara í skimun. Frekari útfærslur verða tilkynntar síðar.