Naomi Osaka og Coco Gauff, næsta kynslóð tennisstjarna, hafa ákveðið að stíga upp og blanda sér í umræðuna um málefni svartra í Bandaríkjunum.
Hin 22 ára gamla Osaka hefur venjulega verið mjög hlédræg og forðast sviðsljósið en ákvað að nýta sér samfélagsmiðilinn Instagram til að lýsa yfir stuðningi sínum. Þá tjáði hún sig einnig á Twitter-síðu sinni.
„Þó það komi ekki fyrir þig þá þýðir það ekki að það sé ekki að gerast,“ sagði hún meðal annars og benti á að margir sjái einfaldlega ekki þá fordóma sem litað fólk verði fyrir.
Gauff, sem er aðeins 16 ára, hefur tekið í sama streng en hún birti TikTok myndband – sem er einkar vinsæll samfélagsmiðill hjá ungu kynslóðinni – þar sem hún sagði að morðið á George Floyd og önnur slík í gegnum tíðina væru einfaldlega ástæða þess að hún ætlaði sér að nýta rödd sína til að berjast gegn kynþáttafordómum.
Osaka and Gauff should not be discouraged from their protests | Tumaini Carayol https://t.co/UBDnJDmbpT
— The Guardian (@guardian) May 31, 2020
Osaka og Gauff eru tvær af skærustu stjörnum tennisheimsins nú þegar og verða þær í sviðsljósinu um ókomna tíð. Osaka er til að mynda andlit Ólympíuleikanna í Tókýó sem fram fara næsta sumar.