Tveir lögregluþjónar á Suðurlandi hafa greinst með Covid-19 til viðbótar við þann sem greinst hafði áður eftir aðgerðir vegna Rúmenanna sem komu til lands í síðustu viku. Lögreglan hafði afskipti af þremur mönnum vegna gruns um þjófnað úr verslun á Selfossi. Þeir áttu þá að vera í sóttkví og reyndust tveir þeirra með virk Covid-19 smit.
Lögreglukonan Íris Edda Heimisdóttir smitaðist af veirunni og segir hún það hafa verið mikið áfall.
Sjá einnig: Áfall að greinast með kórónuveiruna eftir lögreglustörf
Fjórtán Rúmenar eru vistaðir í farsóttarhúsinu við Rauðarárstíg í Reykjavík eftir að hafa rofið sóttkví. Búið er að ákveða að vísa tveimur þeirra úr landi.
Lögregluþjónarnir tveir sem greindust smitaðir voru þegar í sóttkví, samkvæmt Víði Reynissyni, yfirlögregluþjóni hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.
Annar þeirra hafði þegar misst af eigin útskrift vegna einangrunarinnar. Þar að auki er maki hans gengin 39 vikur með barn þeirra og er útlit fyrir að hann muni missa af fæðingu þess.