Innlent

Gunnar og félagi fá bætur frá ríkinu vegna LÖKE-málsins

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Lögreglumennirnir voru handteknir árið 2015.
Lögreglumennirnir voru handteknir árið 2015. Vísir/vilhelm

Gunnar Scheving Thorsteinsson lögreglumaður og félagi hans fengu í gær greiddar miskabætur frá ríkinu fyrir ólögmæta handtöku, húsleit og aðrar þvingunaraðgerðir gegn þeim árið 2015 í svokölluðu LÖKE-máli. Morgunblaðið greinir frá þessu í dag.

Garðar Steinn Ólafsson lögmaður samdi við ríkislögmann í umboði lögreglumannanna. Fram kemur í Morgunblaðinu að skrifað hafi verið undir í liðinni viku og bæturnar greiddar út í gær. Skjólstæðingar hans vilja ekki tjá sig um fjárhæð bótanna opinberlega, að sögn Garðars.

Gunnar, ásamt starfsmanni símafyrirtækisins Nova annars vegar og lögmanns hins vegar, var handtekinn árið 2015 vegna gruns um að hann hefði flett upp nöfnum 45 kvenna í upplýsingakerfi lögreglunnar, LÖKE, og deilt með þeim tveimur síðarnefndu. Fallið var frá þeirri ákæru.

Síðar kærðu Gunnar og Nova-starfsmaðurinn Öldu Hrönn Jóhannsdóttur, sem rannsakaði LÖKE-málið á sínum tíma er hún var staðgengill lögreglustjóra á Suðurnesjum. Málið var að endingu fellt niður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×