Erlent

„Into the Wild-rútan“ fjar­lægð úr ó­byggðum Alaska

Atli Ísleifsson skrifar
Rútan var flutt á brott með CH-47 Chinook þyrlu og á „öruggan stað“, en enn á eftir að ákveða hvar henni verður varanlega komið fyrir.
Rútan var flutt á brott með CH-47 Chinook þyrlu og á „öruggan stað“, en enn á eftir að ákveða hvar henni verður varanlega komið fyrir. AP

Yfirvöld í Alaska hafa fjarlægt rútuna frægu sem skrifað var um í bókinni Into the Wild og kom við sögu í samnefndri kvikmynd Sean Penn frá árinu 2007. Ítrekað hefur þurft að bjarga göngumönnum sem hafa reynt að komast að rútunni þar sem hún stóð við Teklanika-ána.

Rútan, sem er frá fimmta áratug síðustu aldar, var flutt á brott með þyrlu bandaríska hersins.

Rútan varð fræg í kjölfar þess að ævintýramaðurinn Chris McCandless fór að rútinni og dvaldi í henni sumarið 1992. Hann dó af völdum vannæringar eftir 114 daga í óbyggðunum.

Saga McCandless var sögð í bók Jon Krakauer, Into the Wild, frá árinu 1996 og var síðar gerð að kvikmynd árið 2007 þar sem Emile Hirsch fór með hlutverk McCandless.

Í frétt Sky News segir að björgunarlið hafi fimmtán sinnum verið kallað út vegna göngufólks sem hafi þurft á aðstoð að halda á leið sinni að rútunni á árunum 2009 til 2017.

Tveir göngumenn hafa dáið á leið sinni að rútunni – annars vegar 2010 og hins vegar 2019.  Síðast í febrúar þurfti að bjarga fimm ítölskum göngumönnum sem reyndu að komast að rútunni, og þjáðist einn þeirra af kali.

AP

Rútan var flutt á brott með CH-47 Chinook þyrlu og á „öruggan stað“, en enn á eftir að ákveða hvar henni verður varanlega komið fyrir.

Vegagerðarmenn komu rútunni á staðinn fyrir hartnær sextíu árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×