Erlent

24 ára nýliði vann yfirburðasigur gegn frambjóðanda Trump

Samúel Karl Ólason skrifar
Madison Cawthorn þykir líklegur til að sigra í kosningunum í nóvember.
Madison Cawthorn þykir líklegur til að sigra í kosningunum í nóvember. Framboð Cawthorne

Hinn 24 ára gamli Madison Cawthorn tryggði sér í gær framboðsrétt til Bandaríkjaþings í forvali Repúblikanaflokksins í Norður-Karólínu. Bar hann sigur úr bítum gegn fasteignasalanum Lindu Bennett en hún hefur lengi starfað innan Repúblikanaflokksins og hafði tryggt sér stuðning Donald Trump, forseta, og nokkurra þingmanna.

Þau voru að keppa um sæti fyrrverandi þingmannsins Mark Meadow, sem hætti í fyrra til að verða starfsmannastjóri Hvíta hússins.

Cawthorne mun etja kappi við fyrrverandi saksóknarann Moe Davis í kosningunum í nóvember. Kjördæmið hallar verulega til hægri og þykir sigur Cawthorne líklegur.

Cawthorne verður orðinn 25 ára þegar hann tekur sér sæti á þingi á næsta ári, en það er lágmarksaldur þingmanna samkvæmt stjórnarskrá. Hann er í hjólastól vegna bílslyss sem hann lenti í árið 2014 og vinnur sem framkvæmdastjóri fjárfestingasjóðs.

Hann er stuðningsmaður Trump en forsetinn hafði lýst yfir stuðningi við Bennett og hafði tekið upp auglýsingu henni til stuðnings. Cawthorne fékk þó um tvo þriðju atkvæða, samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar.

Kjósendur Repúblikanaflokksins hafa nú þrívegis á skömmum tíma farið gegn vilja forsetans í forvölum.

„Andstæðingur minn virtist hafa mikinn áhuga á landspólitík en ég vildi vera talsmaður fólksins í Norður-Karólínu,“ sagði Cawthorn í samtali við blaðamann AP.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×