Vegagerðin ætlar að leggja nýtt malbik yfir kafla á Kjalarnesi þar sem nýlagt malbik stenst ekki staðla og útboðsskilmála um viðnám. Tveir létust í árekstri húsbíls og bifhjóls á veginum í gær.
Í tilkynningu frá Vegagerðinni kemur fram að nýja malbikið verði lagt um leið og aðstæður leyfa á kaflanum á milli Grundarhverfis og Hvalfjarðarganga. Kaflinn hafi verið mældur í morgun og reynst mun hálli en Vegagerðin gerir kröfur um.
Einnig stendur til að skipta um malbik á kafla við Gullinbrú í Reykjavík. Hann verður fræstur og endurlagður. Aðrir kaflar sem gætu verið of hálir verða einnig skoðaðir og lagfærðir ef þörf krefur.
Í millitíðinni hefur hraði verið lækkaður á köflunum þar sem hála malbiki er. Fylgst verður með viðnáminu og leyfilegur hraðir hækkaður þegar aðstæður leyfa.
„Þekkt er að nýlagt malbik er hálla í byrjun en jafnar sig nokkuð hratt. Í tilvikum sem hér um ræðir er viðnámið hinsvegar þannig að ekki verður við unað og því er brugðið til þess ráðs að leggja nýtt malbik yfir,“ segir í tilkynningu Vegagerðarinnar.
Aðstæðum vegna malbikisins hefur verið kennt um slysið í gær. Vegagerðin segir í tilkynningunni að til framtíðar verði sú regla tekin upp við lagningu malbiks að hraði verði alltaf lækkaður og ekki hækkaður aftur fyrr en viðnám verður ásættanlegt.