Ólafur Stefánsson fyrrverandi handboltakappi og landsliðsmaður vildi stöðva bíl konu sem vildi fara um Laugaveg á bíl sínum. Bíllinn er með merki til marks um að þar færi fatlaður einstaklingur en það fór fram hjá hinum ákafa gjörningalistamanni.
Óheppileg hetjudáð
Fyrir tæpri viku fjallaði Mbl.is um það sem ekki verður betur skilið en nokkur hetjudáð Ólafs Stefánssonar, handboltakappa, í það minnsta í hugum þeirra sem aðhyllast bíllausan lífsstíl og göngugötur. Óli „brá sér fyrir bifreið sem ók ólöglega niður Laugaveg síðdegis í dag og vakti þannig undrun og athygli vegfarenda.“
Sagt er af því að mbl.is hafi átt leið hjá þegar Óli Stef hélt viðburðinn Kakó og undrun, hluti af viðburðauppsprettum (e. pop up) Borgarinnar okkar, Vínstúkunnar Tíu sopa og Vonarstrætis.
Myndir sýna Ólaf með kakóbolla og einhverja furðuhluti; „eflaust gerðum til að valda undrun gesta, er hann stendur í vegi fyrir bílnum sem virti að vettugi bann við akstri niður sumargötuna. Ólafur hafði þó ekki erindi sem erfiði og þurfti að sveigja frá er ökumaður bifreiðarinnar lét ekki segjast og hélt akstrinum áfram.“
Konan skelkuð og kvíðin
En hér er ekki öll sagan sögð.
„Þetta er sem sagt bíllinn hennar mömmu og þessu lendum við í þegar við keyrum heim,“ segir kona nokkur sem deilir téðri frétt mbl.is á Facebook og bendir á að kurteisi kosti ekki neitt.

Konan segir svo frá: „Um daginn lamdi einhver maður í húddið og reif upp hurðina og bölvaði mömmu! Hún varð auðvitað mjög skelkuð.“
Þá segir að konan að kvíði hafi gripið um sig í brjósti móður hennar og að hún þori vart út úr húsi. „Svona uppákomur eru orðnar daglegt brauð. Tek fram að mamma er með hjólastólamerkið í bílnum sínum og leyfismiðann um að hún megi keyra heim til sín.“