Veður

„Ferða­lög með hjól­hýsi og aðra ferða­vagna eru ekki skyn­sam­leg“

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Mikil umferð hefur verið um suðurlandið í dag.
Mikil umferð hefur verið um suðurlandið í dag. Vísir/Vilhelm

Tvö hjólhýsi hafa fokið út af veginum yfir Lyngdalsheiði nú í kvöld. Að sögn varðstjóra hjá lögreglunni á Suðurlandi hafa þrjú eða fjögur hjólhýsi fokið út af vegum í umdæminu í dag. Veðrið sé afar slæmt og því ekki skynsamlegt að vera á ferðinni með aftanívagna.

„Ferðalög með hjólhýsi og aðra ferðavagna eru ekki skynsamleg núna á meðan veðrið er svona,“ segir Frímann Baldursson, varðstjóri hjá lögreglunni á Suðurlandi, í samtali við fréttastofu.

Vindur á Lyngdalsheiði er nú um 18 m/s en hafa kviður farið upp í allt að 26 m/s.

„Það er bara svakalega mikið rok og það er bara ekki sniðugt að vera á ferðinni með hjólhýsi, fellihýsi eða einhverja léttari ferðavagna,“ segir Frímann. Hann segir að það sé búin að vera mikil umferð í umdæminu í dag, sem hafi komið nokkuð á óvart.

„Hún var meiri en ég bjóst við núna. Ég bjóst ekki við að það yrði svona mikið í dag, umferðin í dag í gegn um Selfoss er búin að vera nokkuð þétt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×