Innlent

Tillögur komnar á borð ráðherra

Andri Eysteinsson skrifar
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra fer nú yfir tillögurnar.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra fer nú yfir tillögurnar. Vísir/Vilhelm

Tillögur sóttvarnalæknis um aðgerðir vegna faraldurs kórónuveirunnar eru komnar á borð heilbrigðisráðherra. Þetta staðfesti Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, staðgengill Sóttvarnalæknis í samtali við Fréttablaðið.

Kamilla sagði að vonast væri til þess að hægt verði að gera tillögurnar opinberar strax á morgun.

Í viðtali við Stöð 2 fyrr í dag sagðist Alma Möller, landlæknir, telja að ákvörðun heilbrigðisráðherra gæti legið fyrir á næstum dögum.

Almannavarnir og heilbrigðisráðuneytið funduðu í dag og sagði Alma að á fundinum hefðu fundarmenn velt fyrir sér hvaða möguleikar væru í stöðunni.

Aðallega hafi verið skoðað hvort breyta þurfi áherslum eða herða reglur á landamærunum. Einnig hvort grípa þurfi til aðgerða innanlands „Þar er helst verið að tala um breytingu á fjöldatakmörkunum og tveggja metra reglunni,“ sagði Alma.

Landspítalinn og hjúkrunarheimili hafa þegar boðað hertar aðgerðir og hvetja aðstandendur til að minnka heimsóknir eins og hægt er. Frá og með miðnætti verður eingöngu einum í einum leyft að heimsækja sjúkling á Landspítalanum og það á milli 16 og 18. Sama takmörkun er í gildi á Hrafnistuheimilunum hvað varðar fjölda gesta samkvæmt orðum Hrannar Ljótsdóttur forstöðumanns Ísafoldar í Garðabæ í beinni útsendingu í Kvöldfréttum Stöðvar 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×