Handbolti

Díana Dögg til Þýskalands

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Díana Dögg var næstmarkahæsti leikmaður Vals á síðasta tímabili.
Díana Dögg var næstmarkahæsti leikmaður Vals á síðasta tímabili. vísir/bára

Díana Dögg Magnúsdóttir, landsliðskona í handbolta, hefur samið við þýska B-deildarliðið BSV Sachsen Zwickau. Undanfarin fjögur ár hefur hún leikið með Val.

Á síðasta tímabili skoraði Díana 70 mörk í átján leikjum í Olís-deild kvenna. Valur var í 2. sæti þegar keppni var hætt vegna kórónuveirufaraldursins. Þá komust Valskonur í undanúrslit Coca Cola-bikarsins þar sem þær töpuðu fyrir Frömurum.

Tímabilið þar á undan, 2018-19, vann Valur þrefalt, varð deildar-, og bikar- og Íslandsmeistari.

Díana, sem er 22 ára, kom til Vals frá ÍBV 2016. Hún var einnig liðtæk í fótbolta og lék 29 leiki og skoraði fimm mörk fyrir ÍBV í efstu deild.

Þórey Anna Ásgeirsdóttir, sem kom frá Stjörnunni í sumar, fær væntanlega það hlutverk að fylla skarð Díönu í stöðu hægri skyttu hjá Val. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×