Tilfellum kórónuveirunnar hér á landi hefur fjölgað hratt á undanförnum dögum og er heildarfjöldi þeirra sem nú sæta einangrun 83. Vegna þessarar fjölgunar smita hér á landi eiga Íslendingar á hættu á að lenda á rauðum lista nokkurra þjóða vegna kórónuveirunnar.
Ýmist er ferðalöngum sem ferðast frá landi á rauða listanum skylt að sæta sóttkví við komuna til landsins eða jafnvel fá þeir ekki inngöngu.
Mörg ríki miða við 14 daga nýgengi á hverja 100.000 íbúa landsins. Hér á landi er nýgengi innanlandssmita 18,5 en þessi tölfræði hefur verið aðgengileg á Covid.is um nokkurn tíma.
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin og Sóttvarnastofnun Evrópu hafa haldið utan um nýgengni smita í ríkjum heims og fengu íslensk stjórnvöld tölfræði stofnananna nýlega breytt þar sem talin voru með smit þar sem mótefni höfðu greinst á landamærunum. Höfðu Eystrasaltsríkin Eistland og Lettland þá sett Ísland á lista yfir þjóðir hvers borgarar þyrftu að sæta tveggja vikna sóttkví við komuna til ríkjanna.
Vel var tekið í beiðni yfirvalda og voru tölurnar uppfærðar. Nú eftir hraða fjölgun smita stefnir hins vegar í sömu stöðu í ríkjunum og víðar.
Til að mynda má búast við því að Íslendingar muni aftur þurfa að fara í fjórtán daga sóttkví við komuna til Eistlands og Lettlands enda miða þjóðirnar lista sína við 16 smit á síðustu tveimur vikum á hverja 100.000 íbúa. Þá er einnig útlit fyrir að Íslendingar detti af grænum lista Norðmanna sem miða við 20 smit.
Verdens Gang í Noregi greinir þó frá því að smitin verði fleiri en 20 sé ekki útséð með að ríki fari yfir á rauða listann. Yfirvöld í Noregi biðu með slíka ákvörðun sem sneri að Belgum í heila viku á meðan fylgst var gaumgæfilega með stöðunni þar í landi.
VG greinir þá frá því að listarnir verði uppfærðir í lok vikunnar.