Fótbolti

Bale gæti farið frá Real Madrid á láni

Ísak Hallmundarson skrifar
Bale hefur þurft að sitja mikið á varamannabekknum síðasta árið.
Bale hefur þurft að sitja mikið á varamannabekknum síðasta árið. getty/Denis Doyle

Walesverjinn Gareth Bale hefur ekki átt sjö daganna sæla hjá Real Madrid síðasta árið. Hann virðist ekki hafa náð að aðlagast lífinu hjá Spánarmeisturunum þrátt fyrir að hafa verið í sjö ár hjá félaginu og virðist hafa meiri áhuga á að spila golf heldur en að spila fótbolta.

Bale neitaði að ferðast með Madrídarliðinu til Manchester um helgina í leik gegn Manchester City í Meistaradeildinni þar sem hann taldi engar líkur á að hann fengi að spila. Á sama tíma og liðsfélagar hans ferðuðust til Manchesterborgar sást Bale úti á golfvelli á Spáni.

Bale hefur verið orðaður frá Real í sumarglugganum undanfarin ár en það hefur ekki tekist að finna nýtt lið handa honum. Nú er sagt að lausnin á þessu máli gæti verið fundin, en hann gæti farið á láni frá Real og Madrídarliðið myndi borga hluta af himinháum launum hans.

Vandamál Bale hafa einmitt snúist um launin, hann er sagður vera með 600.000 pund á viku í Madrid og vill ekki taka á sig launalækkun til að spila annarsstaðar. 

Umboðsmaður hans hefur áður sagt að Bale muni ekki fara neitt en það eru enn tvö ár eftir af samningnum hans hjá Real og því gætu báðir aðilar þurft að finna lausn á málinu, í ljósi þess að Bale virðist ekki vera að fara spila neitt hlutverk með liðinu undir stjórn Zinedine Zidane.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×