Svetlana Tikhanovkaya forsetaframbjóðandi í Hvíta Rússlandi er flúin heimaland sitt og er komin til Litháen. Þetta staðfestir utanríkisráðherra Litháen í morgun en víðtæk mótmæli standa enn yfir í heimalandi hennar vegna forsetakosninganna sem fram fóru um helgina þar sem sitjandi forseti Alexander Lúkasjenkó fékk yfirgnæfandi meirihluta atkvæða.
Tikhanovskaya sakar Lúkasjenkó um kosningasvik og neitar að virða niðurstöðuna. Lögregla beitti gúmmíkúlum gegn mótmælendum í nótt og að minnsta kosti einn mótmælandi lést þegar einhverskonar sprenging varð í grennd við hann. Lögreglan segir hann hafa haldið á heimatilbúinni sprengju.
Svetlana #Tikhanovskaya is safe. She is in #Lithuania. pic.twitter.com/6f9U2meoX0
— Linas Linkevicius (@LinkeviciusL) August 11, 2020
Lúkasjenkó sakar stjórnarandstöðuna um að vera leppa utankomandi afla og hefur heitið því að berja alla andstöðu niður, en hann hefur verið nær einráður í landinu í aldarfjórðung.
Alþjóðlegir eftirlitsaðilar með framkvæmd kosninga fengu ekki að fylgjast með forsetakosningunum, rétt eins og í síðustu forsetakosningum, og hafa þeir lýst yfir áhyggjum um kosningasvindl. Bæði Bandaríkin og Evrópusambandið hafa fordæmt framkvæmd kosninganna.