Fresta hefur þurft einhverjum Þrettándabrennum sem halda átti í dag en mikil lægð gengur nú yfir landið. Þrettándabrennum hefur verið frestað á Siglufirði, Djúpavogi og Eskifirði. Þrettándagleðin á Egilsstöðum verður færð inn í íþróttahúsið.
Þrettándagleði verður haldin á Akranesi við þyrlupallinn á Jaðarsbökkum og var gengið þangað frá Þorpinu kl. 17. Þá verður farið í íþróttahúsið eftir brennu þar sem tilkynnt verður um val á íþróttamanni ársins. Á Selfossi verður farin blysför frá Tryggvaskála kl. 20 að tjaldstæði Gesthúsa þar sem brennan fer fram. Þar verður einnig flugeldasýning og eru bæjarbúar hvattir til að mæt í trölla-, álfa- eða jólasveinabúningum.
Þá verður þrettándabrenna í Ólafsvík með hefðbundnu sniði þar sem gengið verður frá Pakkhúsinu kl. 18 að brennustað rétt innan við félagsheimilið á Klifi. Þar verður einnig flugeldasýning. Á Húsavík byrjaði brenna kl. 17 við Sandvík og verður grímuball í Skúlagarði eftir Brennuna.
Í Reykjavík verður Þrettándagleði haldin á tveimur stöðum en kveikt verður á brennu við Ægisíðu og í Gufunesbæ í Grafarvogi. Í Grafarvogi hófst gleðin með kakó- og vöfflusölu í Hlöðunni kl. 17 og rétt fyrir kl. 18 hefst blysför og verður kveikt í bálkestinum rétt eftir kl. 18. Gengið verður með kyndla frá Melaskóla kl. 18 að Ægisíðu og verður eldur borinn að kestinum og flugeldum skotið upp.
Víðs vegar var haldið upp á Þrettándann snemma í ár, þar á meðal á Höfn í Hornafirði, Borgarnesi, Akureyri og Ísafirði.
