Tvær rútur fuku út af Suðurlandsvegi á Hellisheiði við Hveradali á níunda tímanum í morgun, samkvæmt upplýsingum frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins. Tæplega fjörutíu erlendir ferðamenn eru í rútunum tveimur en ekki er talið að neinn sé alvarlega slasaður og viðbragð í samræmi við það. Hellisheiði hefur verið lokað tímabundið á meðan viðbragðsaðilar athafna sig á slysstað.
Sjúkrabílar og tækjabíll frá höfuðborgarsvæðinu voru komnir á vettvang á tíunda tímanum, auk þess sem sjúkrabílar frá Selfossi hafa verið sendir á slysstað. Sautján voru í annarri rútunni og tuttugu í hinni. Önnur rútan fór á hliðina þegar hún hafnaði utan vegar en hin er á hjólunum.
Fólkið verður nú ferjað niður að Hellisheiðarvirkjun þar sem staðan verður tekin og fólkið skoðað. Þá hefur aðgerðastjórn verið virkjuð á Selfossi vegna slyssins.
Fréttin var uppfærð klukkan 9:28.
Hellisheiði: Vegurinn er lokaður vegna þess að rúta fór útaf veginum. Bent er á hjáleið um Þrengsli (39) #lokað #færðin
— Vegagerðin | Iceland Roads (@Vegagerdin) January 25, 2020