Viðskipti innlent

Hótel Skúla á Ásbrú skellir í lás

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Skúli Mogensen.
Skúli Mogensen. Vísir/Vilhelm

Base hótel á Ásbrú á Reykjanesi, sem er í eigu félags Skúla Mogensen, fyrrverandi forstjóra og eiganda Wow air, hefur lokað og hætt rekstri. Tilkynnt er um lokunina á vef hótelsins en Viðskiptablaðið greindi fyrst frá. Þá hefur blaðið eftir heimildum sínum að öllu starfsfólki hótelsins hafi verið sagt upp störfum í morgun.

Í tilkynningu á vef Base hótel segir að hótelinu hafi verið lokað og eru viðskiptavinir beðnir innilegrar afsökunar á óþægindunum sem lokunin kunni að valda. Þá er bent á hótel og farfuglaheimili í nágrenninu sem viðskiptavinir gætu nýtt sér í stað Base hótels. Því er jafnframt beint til viðskiptavina að hafa samband við bókunaraðila eða kortafyrirtæki sitt vegna endurgreiðslu.

Félagið TF HOT ehf. í eigu Skúla Mogensen rak hótelið sem opnað var sumarið 2016. Samkvæmt frétt Viðskiptablaðsins var fasteign félagsins í eigu TF KEF ehf., annars félags í eigu Skúla. Mbl greindi frá því árið 2017 að fjórar fasteignir Skúla í Ásbrúarhverfinu, þar á meðal fasteignir Base hótels, hefðu verið settar í söluferli. Ekki varð þó af sölunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×