Icelandair gerir ekki ráð fyrir að MAX-þoturnar nýtist félaginu næsta sumar og neyðist því til að halda elstu Boeing 757-þotum sínum enn lengur í rekstri. Meðalaldur þeirra hjá félaginu er orðinn 24 ár. Fjallað var um málið í fréttum Stöðvar 2.
Forstjóri Icelandair lýsti um miðjan desember bjartsýni um að 737 MAX-vélarnar flygju á ný í maímánuði í vor og að þær myndu þannig nýtast á háannatíma sumarsins. En í gær birtust fréttir af því að Boeing-verksmiðjurnar teldu sig þurfa enn lengri tíma í samvinnu við alþjóða flugmálayfirvöld til að koma Möxunum aftur í rekstur.

Samkvæmt upphaflegum áætlunum Icelandair áttu alls fjórtan Maxar að vera komnir inn í reksturinn á þessu ári; níu vélar áttu að vera komnar inn á síðasta ári og síðan áttu fimm að bætast við á þessu ári.
Icelandair segir í tilkynningu í dag að vegna ráðstafana, sem þegar sé búið að grípa til, verði áhrifin á útgefna sumaráætlun félagsins óveruleg. Þannig sé búið að leigja inn þrjár Boeing 737-800 vélar. Jafnframt neyðist félagið til að halda fjölda Boeing 757 véla lengur í flota félagsins, sem áður stóð til að taka úr notkun eftir því sem MAX-vélarnar kæmu inn og leystu þær af hólmi.

757-vélarnar eru mun óhagkvæmari í rekstri, eyða fjórðungi meira eldsneyti á hvert sæti, auk þess sem viðhaldskostnaður þyngist eftir því sem aldurinn færist yfir þær. Boeing hætti framleiðslu þeirra fyrir sextán árum og er meðalaldur 757-véla Icelandair núna 24 ár. Elstu vélar félagsins eru um þrítugt, sú elsta árgerð 1989, samkvæmt upplýsingum á flugvefsíðunni Planespotters.
Forstjórinn Bogi Nils Bogason sagði fyrir mánuði að Icelandair stefndi að ákvörðun fljótlega á nýju ári um næstu skref í flotamálum. Menn bíða spenntir eftir því hvort félagið muni snúa sér að Airbus-þotum.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: