Innlent

Deildu um lögþvingun

Erla Björg Gunnarsdóttir og Samúel Karl Ólason skrifa

Sveitarstjórnarráðherra segir suma þingmenn misskilja þingsályktunartillögu um lágmarksfjölda íbúa sveitarfélaga. Ekki sé um lögþvingun að ræða enda hafi tillagan verið unnin í náinni samvinnu við sveitarfélög og þau hafi tíma til að aðlaga sig.

Í gær var þingsályktunartillaga um lágmarksfjölda íbúa sveitarfélaga samþykkt á Alþingi. Þingmenn Flokks fólksins, Pírata og Miðflokksins greiddu atkvæði gegn tillögunni ásamt þremur stjórnarþingmönnum.

Í dag setti Inga Sæland málið á dagskrá í óundirbúnum fyrirspurnum. Sagði hún ólýðræðislegt að sveitarfélög fái ekki að stjórna sameiningu sjálf, að hver og einni íbúi eigi að hafa sitt um málið að segja eins og í lýðræðisríki sæmi. Spurði hún ráðherra hvort honum þætti sjálfsagt að lögþvinga sveitarfélag í sameiningu, á þeirri forsendu að þau séu ekki sjálfbær.

„En nú þekkjum við lítil sveitarfélög sem eru sjálfbær og geta rekið sig sjálf og kæra sig ekki um sameiningu. Á sama tíma og við erum að horfast í augu við það hér, að það eigi í rauninni að lögþvinga þau í slíka aðgerð,“ sagði Inga Sæland.

Sigurður Ingi sagði þingmenn hafa misskilið málið eins og komið hafi fram í afstöðu þeirra og atkvæðaskýringum í gær. Tillagan sé unnin í nánu samráði við sveitarfélögin og yfir langan tíma. Stór og afgerandi hluti sveitarfélaga hafi stutt tillöguna. Mikilvægt sé að sveitarstjórnarstigið sé öflugt og geti tekist á við verkefnin sem löggjafinn feli þeim.

„Ég tel að þetta sé ekki lögþvingað. Menn hafa talsverðan tíma til þess að koma til móts við þetta og svo í frumvarpssmíðinni verður tekið tillit til þeirra athugasemda sem koma fram hjá þinginu og birtust í gær,“ sagði Sigurður Ingi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×