Bæjarfulltrúi í Vesturbyggð hefur óskað eftir tímabundnu leyfi frá störfum í kjölfar þess að tveir starfsmenn við Patreksskóla sögðu upp störfum á síðasta ári eftir að hafa sakað bæjarfulltrúann, sem einnig starfar við skólann, um eineltistilburði.
Annar þeirra sem sagði upp hefur ákveðið að leitað réttar sína vegna málsins. Var haft eftir lögfræðingi þess að það hafi verið skýr niðurstaða eineltisteymis sveitarfélagsins að um einelti hafi verið að ræða.
Óvægin og einhliða
Bæjarfulltrúinn, María Ósk Óskarsdóttir, greindi frá ákvörðun sinni að óska eftir tímabundnu leyfi frá störfum sínum í sveitarstjórn á Facebook-síðu sinni í gær. Segir nú að umræða síðustu daga bæði hafa verið óvægna og einhliða.
María Ósk, sem á sæti í sveitarstjórn fyrir hönd Nýrrar sýnar, segir að þegar einstaklingur hljóti þann heiður að verða kjörinn fulltrúi fylgi því óhjákvæmilega ákveðið skotleyfi.
Neydd í mikla sjálfsvinnu
„Ég ætla ekki fyrir nokkurn mun að réttlæta mínar gjörðir, en ýmislegt hefur gengið á sem skekkir niðurstöðuna töluvert.
Síðastliðin fjögur ár hefur einstaklingur haft á mér einstakan áhuga, raunar svo mikinn að hann hefur sagt það margoft að hann skuli ekki hætta að áreita mig fyrr en hann liggi í gröfinni.
Þessi áreitni hefur neytt mig í mikla sjálfs vinnu og verð ég honum ævinlega þakklát fyrir það,“ segir María.
Færslunni lýkur á því að María Ósk segist vilja koma því á framfæri að hún hafi óskað eftir tímabundnu leyfi frá störfum sínum sem bæjarfulltrúi í Vesturbyggð. Vísar hún svo í fleyg orð Jóhönnu Sigurðardóttur: „MINN TÍMI MUN KOMA.“